Fótbolti

Að­eins einum leik frá ó­trú­legu meti

Sindri Sverrisson skrifar
Það gengur vel hjá Xabi Alonso.
Það gengur vel hjá Xabi Alonso. Getty/Alex Grimm

Xabi Alonso og lærisveinar hans í Leverkusen hafa enn ekki tapað leik á leiktíðinni og eru aðeins einum leik frá því að slá ótrúlegt met.

Leverkusen tapaði síðast leik í maí á síðasta ári og hefur nú spilað 48 leiki í röð, í öllum keppnum, án þess að þurfa að sætta sig við tap.

Þessu hefur svo sannarlega fylgt árangur því liðið varð þýskur meistari í fyrsta sinn um miðjan apríl, er komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar og mætir Kaiserslautern í úrslitaleik þýska bikarsins 25. maí.

En ætli Leverkusen að slá 59 ára gamalt Evrópumet Benfica, með því að spila 49 leiki í röð án taps, þá þarf liðið að forðast tap gegn Roma á fimmtudaginn. Það er seinni leikur liðanna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar, og er Leverkusen 2-0 yfir eftir góðan útisigur í fyrri leiknum.

Liðið á svo eftir tvo leiki í þýsku deildinni, þar sem aðeins Bochum og Augsburg geta komið í veg fyrri að Leverkusen klári deildina án þess að tapa. Liðið er fimmtán stigum á undan næsta liði, Bayern München.

Leikmenn Leverkusen virðast síst farnir að lýjast því þeir unnu 5-1 stórsigur gegn Frankfurt á útivelli í gær, í 48. leik sínum í röð án taps.

Granit Xhaka skoraði fyrsta markið með góðu skoti utan teigs á 12. mínútu. Hugo Ekitike náði að jafna fyrir Frankfurt en Patrick Schick kom Leverkusen yfir á nýjan leik, með skalla, rétt fyrir hálfleik. Í seinni hálfleik bætti Exequiel Palacios við marki úr víti, Jeremie Frimpong skoraði sem varamaður og Victor Boniface skoraði lokamarkið úr annarri vítaspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×